143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Maður fær aldrei nein svör við spurningum sem lagðar eru hér fram. Í fyrsta lagi þetta: Það er tveir og hálfur mánuður eftir af þessu þingi, allur mars, megnið af apríl og helmingurinn af maí. Ég skil ekki hvers vegna menn þurfa allt í einu að keyra kvöldfundi bara af því að þetta mál er komið á dagskrá. Það segir mér að menn ætli að keyra það í gegn, sama hvernig, í trássi við vilja minni hlutans og án þess að eiga nokkurt samtal við minni hlutann um það mál. Það á bara að valta yfir menn til að koma þessu máli í gegn. Svo harðir eru menn í málinu.

Ég spyr hæstv. forseta enn og aftur: Af hverju getum við ekki nýtt þann tíma sem við höfum samkvæmt dagskrá þingsins í dagvinnu til að ræða um þetta mál? Það er ekki eins og önnur stór mál hafi komið fram frá ríkisstjórninni, þau eru ekki komin fram. (Forseti hringir.) Svo getum við rætt um að taka kvöldfundi þegar þau eru loksins komin, en svo er bara ekki enn.