143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er bara þannig að þingmenn eru hunsaðir undir þessum lið. Við leggjum hér fram einfaldar spurningar sem varða algerlega forsendur umræðunnar. Hvernig tölum við um skýrslu sem mun bara fá eina umræðu hér og ekkert meira er gert við? Hvernig tölum við um skýrslu sem er forsenda ákvarðanatöku? Hvernig tölum við um skýrslu sem stendur til að kalla gesti um í utanríkismálanefnd? Það skiptir máli. Það skiptir máli á hvaða reit við erum. Og ég kalla eftir því að formaður utanríkismálanefndar tjái sig hérna undir þessum lið. Þetta er óviðunandi framkoma við okkur hér sem erum enn á mælendaskrá um þetta mál. Hvernig eigum við að tala um mál sem við vitum ekki hvað stendur til að gera við? Var málið frá upphafi bara leikþáttur? Það er nú eiginlega illa gert gagnvart leikhúsum þessa lands að líkja því við leikþátt. En er þetta nokkurs konar grín að setja þetta mál fram með þessum hætti? Hvað stendur til? Er erfitt að svara þessu, (Forseti hringir.) virðulegi forseti. Er einhver ómöguleiki hér á ferðinni, virðulegi forseti?