143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[17:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er lítil ástæða fyrir stjórnarþingmenn að gráta það þótt hér sé rætt um fundarstjórn forseta þegar við fáum engin svör. Hæstv. utanríkisráðherra hefur aldrei tjáð sig efnislega í þessari umræðu um sína eigin tillögu sem hann sagði þó að ætti að vera forsenda efnislegrar umræðu og hreinskiptinna skoðanaskipta. Hann hefur að minnsta kosti ekki tekið þátt í þeim.

Við fáum ekki skýr svör um það hvað gera eigi við tillöguna. Það skiptir miklu máli með hvaða hætti unnið verður úr þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Við fáum engin svör um það. Það liggur fyrir að hæstv. fjármálaráðherra flutti hér áðan Heimssýnarfrasana alla saman um að við værum í aðlögunarviðræðum og Sjálfstæðisflokkurinn mundi aldrei styðja neitt slíkt. Með öðrum orðum, yfirlýsingar ríkisstjórnarforustunnar og sérstaklega formanns Sjálfstæðisflokksins benda í þá átt að til standi að girða til langframa fyrir valkosti þjóðarinnar í þessum efnum. Það er líka ljóst að hér er í flýti reynt að ýta í gegn skýrslu sem gefur enga stoð fyrir slíkar ákvarðanir. Við hljótum að krefjast efnislegrar umræðu um þá skýrslu. Við hljótum að biðja um svör um það frá formanni utanríkismálanefndar eða forseta (Forseti hringir.) hvort ekki verða örugglega kallaðir gestir fyrir nefndina, hvort ekki fari fram efnisleg umræða um skýrsluna (Forseti hringir.) áður en efnisleg meðferð þingsályktunartillögunnar fer fram í utanríkismálanefnd.