143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sé hreinlegast að láta stöðuna gagnvart Evrópu endurspegla vilja þings og ríkisstjórnar. Og þjóðarinnar reyndar líka eins og vilji hennar birtist í síðustu alþingiskosningum, þ.e. að við séum ekki í viðræðum eða með opnar viðræður við Evrópusambandið ef ekki stendur vilji til þess að ganga þar inn. Það kemur mér á óvart að heyra hv. þingmann halda því jafn mikið opnu og mér finnst hann gera í ræðu sinni að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið. Eftir fjögurra ára reynslu af aðildarviðræðum, sem samkvæmt Evrópusambandinu sjálfu eiga að vera aðlögunarviðræður, eftir reynslu síðasta kjörtímabils, kemur mér verulega á óvart að þingmaðurinn skuli hafa einhverja trú á því að það að halda málinu í kyrrstöðu eða eftir atvikum taka viðræðurnar upp aftur síðar muni skila eitthvað betri árangri en gerðist á síðasta kjörtímabili. Að öðru leyti (Forseti hringir.) vísa ég til þess um þjóðaratkvæðagreiðslur hvernig ég hef greitt atkvæði um þann möguleika á undanförnum árum og hins vegar hvernig hv. þingmaður hefur greitt atkvæði um þann möguleika í hinum ýmsu málum þegar þau hafa komið upp hér.