143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er minna klofinn í þessu máli en Samfylkingin samkvæmt nýjustu könnunum þar sem fleiri vilja halda sig utan Evrópusambandsins í Samfylkingunni en vilja ganga inn í Sjálfstæðisflokknum. Lykilorðið í ræðu hv. þingmanns er orðið viðræður. Þegar hv. þingmaður segir að mjög margir séu áhugasamir um áframhaldandi viðræður, samningaviðræður. Eru í boði samningaviðræður við Evrópusambandið? Ekki segir Evrópusambandið, ekki fékkst á öllu síðasta kjörtímabili niðurstaða í samræmi við sérstakan vilja Íslendinga um eitt einasta atriði, eftir að umsóknin hafði verið lögð fram, sem hefði verið hægt að túlka sem niðurstöðu í einhverjum samningaviðræðum. Það eina sem í boði var voru lausnir Evrópusambandsins á því hvernig Ísland á að aðlagast Evrópusambandinu.

Þess vegna er það almennur misskilningur á Íslandi, eða hann er að minnsta kosti mjög víðtækur, að við getum farið í samningaviðræður sem eigi að snúast um eitthvað annað en það að taka upp Evrópulöggjöfina.