143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[17:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að inna hv. þingmann um þennan mismun á því að menn tala um aðlögunarviðræður eða samningaviðræður. Í þessu ferli hefur það verið þannig að Ísland hefur orðið að flagga sérstöðu sinni þegar opnað er á ákveðna umræðu um ákveðin málefni. Síðan á sér stað rýnivinna til að meta hver staðan er. Síðan setur ríkið fram samningakröfur og í framhaldinu er reiknað með því að menn setjist niður og semji um það sem út af stendur ef um það er að ræða.

Veit hv. þingmaður um einhver mál þar sem aðlögun að Evrópusambandinu hefur þegar átt sér stað vegna þessa ferils? Menn tala þannig. Ég þekki nú ágætlega til í velferðarráðuneytinu og ég man ekki til þess að við höfum breytt neinu í þeim málaflokki vegna þessara viðræðna. Ég á eftir að kalla eftir því við hæstv. ráðherra og fleiri aðila að þeir segi mér hvað (Forseti hringir.) búið er að aðlaga umfram það sem EES-samningurinn leggur okkur á herðar.