143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í tilviki Íslands er svarið mjög einfalt, það er vegna þess að við eigum það skjalfest frá Evrópusambandinu sjálfu að Evrópusambandið féllst á þá ósk Íslands að þessu ferli yrði þannig hagað að Ísland gæti beðið með allar breytingar á lögum og stofnunum þar til samningur hefði gengið til atkvæða hjá þjóðinni. Það er einfaldlega skjalfest. Evrópusambandinu var það kannski ekkert ljúft að fallast á að viðræðurnar af Íslands hálfu yrðu á þessum forsendum, en þeir skildu aðstæður hér og féllust á það. Það er skjalfest í plöggum frá Evrópusambandinu.

Ég hef stundum spurt þá sem halda því fram að við höfum verið í bullandi aðlögun: Nefnið mér dæmin. Nefnið mér stofnun sem við höfum lagt niður. Nefnið mér stofnun sem við höfum sett á fót. Nefnið mér lög sem við höfum breytt. Nefnið mér eitthvað sem við höfum aðlagað að Evrópuréttinum eingöngu vegna þess að við vorum að ræða við þá um aðild. Og það hafa aldrei (Forseti hringir.) komið nein dæmi, enda eru þau ekki til.