143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var alveg sammála einu í ræðu hv. þingmanns sem er að það væri alveg vonlaust mál að ég færi í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um að ganga í hann. (Gripið fram í.) Ég er hins vegar mjög ósammála ýmsu öðru í ræðu hv. þingmanns. Ég tel í fyrsta lagi að þessi ómöguleikarök séu ekki gild og sérstaklega ekki þegar þeim er teflt gegn beinu lýðræði og því að þjóðin veiti leiðsögn um stór mál.

Auðvitað er það þannig að ef sú staða kemur upp að þjóðin vill til dæmis að viðræðurnar verði kláraðar og það sitja einhverjir ráðherrar eða ríkisstjórn sem af samviskuástæðum telja sig alls ekki geta það, þá geta þeir vikið. Eru það ekki þeir sem eiga að víkja? Eða á að skipta um þjóð? Nei. Þá gera menn það bara upp við sig hvort þeir treysti sér til að lúta vilja þjóðarinnar. Þeir þurfa ekki að láta af sannfæringu sinni, þeir geta sagt: Þjóðin fól mér það verkefni að reyna að ræða við Evrópusambandið og landa eins góðum samningi og hægt er, þó svo að ég sé sem einstaklingur á móti því. Það þarf ekki (Forseti hringir.) að verða neinn samviskuárekstur ef þjóðin hefur sagt mönnum fyrir verkum.

Það hættulega í málflutning hv. þingmanns og sjálfstæðismanna nú er að þeir eru í raun og veru að segja: Ef þjóðin er ekki sammála okkur á að skipta um þjóð.