143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:04]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ekkert verið að tala um að skipta um þjóð, sumt er bara ómögulegt. Það er ekki hægt, og það vita allir sem vilja vita, í viðræðum af þessu tagi að ná niðurstöðu um eitthvað sem þú vilt ekki gera, það er ekki hægt og annað er bara útúrsnúningur. (Gripið fram í.)

Það er að sjálfsögðu hægt að kjósa um það hvort menn vilji inn eða ekki. En það er ekki hægt að kjósa um að halda áfram viðræðum um eitthvað sem viðkomandi ætlar ekki að gera. Það er ekki hægt og ég hef aldrei vitað til þess að slíkt hafi verið gert.

Ég vil hins vegar spyrja í lokin, af því að það er miklu mikilvægari, merkilegri og afdrifaríkari ákvörðun að sækja um inngöngu í eitthvað, hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi verið þeirrar skoðunar að þjóðin hafi átt að hafa eitthvað um það að segja hvort hún vildi ganga í sambandið eða ekki á sínum tíma. Hver var afstaða hans á þeim tíma?