143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Nú veit ég ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson, eru einhvers staðar hér í hliðarsölum en mér þætti óskaplega vænt um það ef þeir væru hér einhvers staðar nálægt þó að ég ætli ekki að láta það tefja mig. Ég vona að þeir fylgist a.m.k. með umræðunni.

Fyrst aðeins vegna orðaskipta hv. þm. Brynjars Níelssonar og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér áðan um að mönnum séu falin verkefni. Hv. þm. Brynjar Níelsson veit mætavel og hefur áreiðanlega upplifað það á eigin skinni að stundum voru honum falin verkefni í daglegum störfum áður en hann kom á þing, jafnvel af dómstólum, eins og að taka fyrir og sinna málsvörn í tilteknum málum, þó að hann kynni að vera algerlega ósammála þeirri vörn sem hann hélt uppi en hann tók að sér verkefnið og gerði það með stakri prýði, stundum með góðum árangri og stundum slakari eftir atvikum. Ég skil því ekki alveg röksemdafærslu hv. þingmanns og sérstaklega að hún skuli koma frá honum vegna þess að honum hlýtur að vera ljóst að það er vel hægt að vinna ákveðin verkefni sem mönnum eru falin og reyna að skila eins góðri niðurstöðu fyrir umbjóðendur og hægt er þó að þeir taki síðan ákvörðun að lokum, t.d. um áfrýjun. Mér finnst þetta ekki alveg ganga upp.

Ég ætla, virðulegur forseti, að reyna að halda mig við umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið sem hér er til umfjöllunar. Önnur mál sem varða tillögur um slit á viðræðum eða þjóðaratkvæðagreiðslu eru síðar á dagskránni og ég áskil mér rétt til þess að tjá mig um þau þegar þau koma á dagskrá. Ég vil halda mig við þessa skýrslu.

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að leggja þessa skýrslu fyrir þingið. Ég tel hana mikilvægt innlegg í umræðuna. Upphaf þessa máls má auðvitað rekja til þess sem segir í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni.“

Við erum sem sagt komin þangað í því verkefni sem ríkisstjórnin hét í stjórnarsáttmála sínum, þ.e. að taka þessa skýrslu til umfjöllunar á Alþingi. Hinn hlutinn, að kynna málið sérstaklega fyrir þjóðinni, er eftir. Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra með hvaða hætti hann eða ríkisstjórnin hyggst standa að kynningu á þessari skýrslu fyrir þjóðinni.

Ég verð að segja að mér finnst þessi skýrsla í sjálfu sér vel unnin. Hún er skipulega upp sett. Skýrslan öll er með fylgiskjölum á níunda hundrað blaðsíður. Ég ætla að játa það hér, og ég efast ekki um að það á við um fleiri hv. þingmenn, að á þeim tíma sem liðinn er frá því sem þessi gögn voru aðgengileg hefur mér ekki gefist ráðrúm til að fara yfir þau öll frá orði til orðs, því miður. Það er einfaldlega of skammur tími liðinn og ýmislegt annað sem kallar á eins og að menn sinni verkefnum í störfum sínum hér. Ég hef þann fyrirvara á að mér hefur ekki gefist ráðrúm til að fara yfir allt það efni sem hér er undir.

Eins og ég sagði finnst mér skýrslan að mörgu leyti mjög vel unnin. Ég tek undir það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði í umræðu um þetta mál hér í gær, að ugglaust gætu bæði stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu og andstæðingar fundið ýmislegt í skýrslunni til að byggja undir sinn málflutning. Það helgast meðal annars af því að sumir hlutir stangast á í skýrslunni. Það er t.d. hvort hægt sé að fá varanlegar undanþágur eða ekki. Um það er auðvitað mikil umræða. Er hægt að fá varanlegar undanþágur eða ekki? Ég tók eftir því að þegar skýrslan kom fram birtu tvö helstu dagblöð landsins, Fréttablaðið og Morgunblaðið, hvort sína fyrirsögnina við fréttina um akkúrat þetta atriði í skýrslunni. Fréttablaðið birti þá niðurstöðu að hægt væri að fá undanþágu, Morgunblaðið var öndverðrar skoðunar. Mér segir svo hugur að sú framsetning dagblaðanna hafi fyrst og fremst helgast af þeim viðhorfum sem eru ráðandi í ritstjórnum þessara fjölmiðla. Það segir okkur að það er eins með þingmenn og aðra sem lesa þessa skýrslu og reyna að átta sig á henni að þeir geta fundið ýmislegt sem styður málflutning sinn. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Mér finnst það líka fínt að í skýrslu af þessum toga séu ýmis álitamál reidd fram og að það sé ekki endilega gefið að óyggjandi svör séu við öllum álitamálum sem upp koma.

Nú er staðan í þessum viðræðum, eftir að ákveðið var að gera hlé um áramótin 2012/2013, sú að búið var að opna 27 kafla af 33 sem eru til umfjöllunar og búið að loka 11 köflum sem þýðir að það var í raun komin samningsniðurstaða, þó með hefðbundnum fyrirvara að sjálfsögðu um að ekkert sé komið fyrr en allt er komið. Það var sem sagt búið að ljúka umfjöllun um 11 kafla. Við vissum að viðræður um kafla sem heyra undir EES-samninginn mundu taka skemmri tíma en viðræður um aðra kafla. Það er eðlilegt vegna þess að í þeim köflum vorum við meira og minna búin að innleiða þá löggjöf sem leiðir af aðild að Evrópusambandinu. Samt sem áður höfðu menn náð því að opna 27 af 33 köflum. Þeir kaflar sem út af stóðu — ég verð að segja alveg eins og er, ég óskaði í upphafi þessa ferlis að menn reyndu að fara snemma í kaflana um sjávarútveg og landbúnað af því að ég vissi að þeir yrðu tímafrekastir. Ég hafði gert mér vonir um að það gæti gengið eftir. Því miður varð það ekki, sérstaklega varðandi sjávarútvegskaflann því að Evrópusambandið hafði ekki einu sinni lagt fram rýniskýrslu í sjávarútvegsmálum. Við vorum því komin mjög skammt á veg þar. Um landbúnaðarkaflann gilti aðeins annað vegna þess að þar var þó í öllu falli búið að kynna ákveðna aðgerðaáætlun af Íslands hálfu sem hafði verið afhent Evrópusambandinu og Evrópusambandið samþykkti hana fyrir sitt leyti og hafði þar af leiðandi boðið íslenskum stjórnvöldum að leggja fram samningsafstöðu.

Síðan eru tveir aðrir kaflar sem ekki hafði tekist að opna, þ.e. kaflinn um staðfesturétt og þjónustufrelsi og kaflinn um frjálsa fjármagnsflutninga. Báðir þessir kaflar tengjast þeim köflum sem ég nefndi áðan, einkum um sjávarútveg, sem hanga þannig saman. Það var því eðlilegt.

Ég tel að í raun og veru megi segja að aðildarviðræður hafi gengið nokkuð vel, kannski ekki eins vel og bjartsýnustu menn gerðu ráð fyrir í upphafi viðræðna 2009. Þá vil ég leyfa mér að segja að í umfjöllun um þetta mál hefur því oft verið haldi fram að það hafi verið ásetningur manna að ljúka viðræðum á 18 mánuðum. Ég er meðvitaður um það að sumir héldu því fram að hægt væri að ljúka viðræðum á skömmum tíma, á 18 mánuðum eða svo. Ég held ég geti fullyrt það að ég hafi sem formaður utanríkismálanefndar ekki verið eins bjartsýnn í umfjöllun um þetta mál, hvorki í umræðum innan nefndarinnar, í þinginu né í viðtölum við fjölmiðla, svo dæmi sé tekið. Ég hygg að ég hafi haft það viðhorf að þessu máli yrði varla lokið fyrr en 2013 og það megi finna í viðtölum við erlenda fjölmiðla til að mynda. Ég veit að aðrir höfðu aðra skoðun. Það var mitt mat, eftir að hafa legið yfir þessu máli sumarið 2009 og átt drjúgan þátt í að vinna nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar, að þetta tæki lengri tíma.

Eitt vil ég líka nefna í sambandi við þá umræðu sem hér hefur farið fram og varðar hvaða rök menn geta fundið fyrir því að slíta viðræðunum nú eða halda þeim áfram. Ég nefndi að vissir hlutir stönguðust á. Það helgast af því að á bls. 37 í skýrslunni er sagt, með leyfi forseta:

„… má ætla að erfitt hefði getað reynst að ná saman.“ — Þar er fjallað um sjávarútvegskaflann. — „Má þar nefna atriði eins og formlegt forræði yfir auðlindum sjávar, takmarkanir við fjárfestingar og forsvar á alþjóðavettvangi.“

Nú geta menn lagt út af þessu: Ja, ætla má að það hefði reynst erfitt, það er sem sagt þýðingarlaust — eða: Já, ætla má að það hefði verið erfitt, en eigum við ekki að láta á það reyna? Þetta nálgast að vera á báða vegu í skýrslunni. Ég ber alveg virðingu fyrir því að menn leggi hver sitt mat á þetta. Mitt mat er að það hafi í raun ekki verið látið reyna á hagsmuni okkar í þeim köflum sem flestir telja að skipti mestu máli fyrir landbúnað og sjávarútveg. Ég vil þó segja í því samhengi að það yrði auðvitað ekki þannig að sérhver Íslendingur tæki afstöðu til þessa máls út frá þessum köflum eingöngu. Sumir eru algerlega andsnúnir því að við förum í ríkjabandalag eins og Evrópusambandið. Aðrir eru því algerlega fylgjandi. Svo eru enn aðrir, og kannski er það stærsti hópurinn, sem vill taka afstöðu á grundvelli niðurstaðna úr samningaviðræðunum, ekki bara að því er varðar sjávarútveg og landbúnað. Það kann vel að vera að einhverjir tækju afstöðu út frá samningsniðurstöðu í umhverfismálum eða vinnuréttindamálum, það er ekki hægt að útiloka það, eða gjaldmiðilsmálum sem er líka stórt mál. Við getum því ekki talað eins og það sé bara landbúnaður og sjávarútvegur sem skipti máli í þessu efni þó að það eigi við um marga. Fyrir ýmsa kunna aðrir hlutir að skipta höfuðmáli.

Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram í þessari umræðu, virðulegur forseti.

Það er stuttur tími til að ræða þetta mál, allt of stuttur. Ég hefði viljað fara miklu meira í efnisatriði skýrslunnar, en af því að það fer að sneiðast af tímanum vil ég segja að ég er feginn því að skýrslan er komin fram. Mér finnst hún vera mikilvægt innlegg í umræðuna um þetta stóra mál. Mér finnst að það eigi að gefa henni það svigrúm sem hún á skilið. Þess vegna finnst mér til að mynda þýðingarmikið að því hafi verið lýst yfir, bæði af forseta og hv. formanni utanríkismálanefndar, að eðlilegt sé að málið gangi til nefndar. Í því efni finnst mér líka mikilvægt að skýrslan fái efnismikla umfjöllun í nefndinni, að leitað verði umsagnar og gestir kallaðir fyrir, t.d. skýrsluhöfundar, bæði aðalskýrslunnar og viðaukanna. Mér finnst það skipta máli að utanríkismálanefnd fái ráðrúm til þess að eiga orðastað við höfunda skýrslunnar til að spyrja út í einstök atriði, álitaefni sem vakna, og nefndarmönnum gefist síðan tækifæri að skila nefndaráliti inn í þingsal, einu eða fleirum eftir atvikum.

Þetta segi ég vegna þess að menn hafa verið að velta fyrir sér og kallað eftir svörum frá hv. formanni utanríkismálanefndar um hvernig hann sjái fyrir sér vinnuna í þessu máli. Ég veit að hann ræður því ekki einn, en það getur skipt máli hvernig hann leggur málið upp. Það væri því eftirsóknarvert að heyra sjónarmið hv. formanns utanríkismálanefndar.

Ég mun a.m.k. fyrir mína parta leggja áherslu á að málið fái vandaða umfjöllun. Ég hef enga löngun til að vera með einhver bolabrögð til að tefja málið í utanríkismálanefnd eða neitt þess háttar. Mér finnst bara eðlilegt að málið fái hefðbundna, vandaða umfjöllun svipað og verið hefur. Nefnd var skýrsla um sæstreng. Hér hefur verið nefnd málsmeðferð að því er varðar náttúruverndarlögin þar sem formaður umhverfisnefndar lagði sig fram um að nefndin næði saman um afgreiðslu þess máls. Jafnvel þó að hér hafi verið lagðar fram þrjár þingsályktunartillögur um framhald málsins, sem ég tel að hefðu allar mátt bíða þar til eftir umfjöllun um skýrsluna, þá finnst mér engu að síður mikilvægt að við gefum skýrslunni það svigrúm sem hún á skilið og kynnum þjóðinni hana svo að í kjölfarið á umræðu og vinnu nefndarinnar um skýrsluna geti menn tekið til við að ræða hvaða (Forseti hringir.) leiðir þeir vilji svo fara á grundvelli þeirra hugmynda og tillagna sem hafa komið fram og kunna að koma fram.