143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það þannig að sú skýrsla sem hér er lögð fram er lögð fram af hæstv. utanríkisráðherra samkvæmt ákvæðum í stjórnarsáttmála. Aðrar skýrslur — ég geri ekki athugasemd við þetta. Skýrsla sem ráðherra leggur fram fer auðvitað til meðferðar með þinglegum hætti til þingnefndar ef eftir því er óskað í samræmi við þingsköp. Það er í raun og veru kannski ekki hægt að gera þá kröfu að skýrsla eða skýrslur sem aðrir aðilar eru að vinna komi inn í þingið með sama hætti. Ég vil því ekki taka upp þá gagnrýni sem ég hef heyrt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil þó segja hitt að fái skýrslan góða meðferð í utanríkismálanefnd og til dæmis umsagnir frá aðilum og gestum eru þeir aðilar sem eru að vinna aðra skýrslu, svo sem eins og Samtök atvinnulífsins, eðlilegur aðili til samráðs í nefndinni og getur komið með sína (Forseti hringir.) vinnu og skýrslu þegar hún (Forseti hringir.) er tilbúin eða a.m.k. drög til (Forseti hringir.) nefndarinnar og þannig getur hún orðið gagn í vinnu utanríkismálanefndar.