143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú ætla ég að játa það gagnvart hv. þingmanni að gengismálin, gjaldmiðilsmálin eru kannski eini afmarkaði þátturinn sem hefur gert það að verkum að mér hefur fundist mikilvægt að skoða aðild að Evrópusambandinu og fara í saumana á því hvað henni fylgir. Sumir halda því fram að það viti allir, en það vita það ekki allir. Ég veit t.d. ekki hver endanleg niðurstaða úr aðildarviðræðum hefði orðið ef þeim hefði verið haldið áfram.

Ég er þeirrar skoðunar að gjaldmiðilsmálin séu ein helsta ástæðan fyrir því að það sé þess virði að skoða þessi mál af því að ég tel að það sé erfitt að vera með íslenska krónu sem gjaldmiðil. Hún er smá og hún er óstöðug og ef hún á að vera áfram og t.d. aðild að myntbandalagi kemur ekki til álita af því að við viljum ekki fara í Evrópusambandið þá verður líka að taka afstöðu til þess hvernig menn vilja hafa krónuna. (Forseti hringir.) Vilja menn hafa hana fljótandi eins og hún hefur verið? Vilja menn hafa hana fasta, gengið fast? Vilja menn binda hana öðrum gjaldmiðli eða hvað? Það eru álitamál sem (Forseti hringir.) enn þá á eftir að taka afstöðu til.