143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ræðuna sem var málefnaleg og ágæt; gott innlegg í þessa umræðu sem er ánægjulegt þegar heilu dagarnir líða án þess að menn komi mikið að málefninu sjálfu.

Hv. þingmaður spurði mig spurninga sem vörðuðu málsmeðferð í utanríkismálanefnd. Ég vil segja það sem ég hef áður sagt um þetta að ég tel að sú skýrsla sem hér er til umræðu sé mikilvægt gagn sem liggi til grundvallar frekari umræðu um málin og eðlilegt að hún fái góða athugun í utanríkismálanefnd. Hvernig nákvæmlega verði að því staðið ætla ég ekki að segja um en ég hins vegar lít á það sem mjög mikilvægt innlegg í umræður og frekari ákvarðanatöku í málinu að fara vel yfir þessa skýrslu og ræða hana vel á vettvangi utanríkismálanefndar. Það kann að spara okkur tíma í sambandi við undirbúning að nefndarálitum í öðrum málum sem hér liggja líka fyrir.