143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvort þingmaðurinn var að tala um vinnuna í nefndinni eða samningaviðræðurnar, aðildarviðræðurnar í framhaldinu. (Gripið fram í: Aðildarviðræðurnar.) Já.

Fyrst aðeins um málsmeðferðina í nefndinni. Sem formaður utanríkismálanefndar lagði ég fram strax í upphafi ítarlegt vinnuskjal, tímaáætlun um nefndarfundi, hvaða gestir kæmu o.s.frv. og hvenær við mundum vinna tiltekin þrep í vinnunni í nefndinni. Það hélt í öllum meginatriðum. Það dróst aðeins en ekki mikið.

Varðandi samningaviðræðurnar þá segi ég eins og er: Það voru margir sem vonuðust til þess að samningaviðræðurnar mundu taka kannski bara 18 mánuði, 24 mánuði. Ég var aldrei jafn bjartsýnn. Ég sagði það hér í ræðu minni áðan að ég hefði til dæmis í viðtölum talið að málinu yrði varla lokið fyrr en á árinu 2013 og það var þá fjögurra ára rými þannig að í mínum huga hefur þetta ekki tekið lengri tíma en ég gerði í raun ráð fyrir. En ég hefði gjarnan kosið að vinnan hefði gengið hraðar.