143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki fullyrt um það. Þegar ég var að vinna að þessu máli innan utanríkismálanefndar sumarið 2009, að setja fram okkar markmið, reyndum við að ná sem flestum hagsmunaaðilum og pólitískum sjónarmiðum inn í þá mynd og settum fram ákveðin meginmarkmið, sem við töldum líka að gætu alveg verið ásættanleg frá sjónarmiði Evrópusambandsins með því að fá til dæmis sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði. Það eru fordæmi fyrir því innan Evrópusambandsins, við töldum að bara vegna þess að fiskimið okkar liggja ekki að fiskimiðum annarra sambandsríkja gæti orðið hér til sérstök lausn. Ég var alls ekkert svartsýnn á það, en get alls ekki fullyrt um það.

Varðandi náttúruverndarmálin og umhverfismálin vil ég bara fá að nefna eitt, af því að ég á eina sekúndu eftir, og það eru hvalveiðarnar. Það eru margir sem hafa gert það að stóru atriði (Forseti hringir.) vegna þess að þær eru ekki heimilaðar innan Evrópusambandsins. Ég vil bara (Forseti hringir.) undirstrika mína skoðun. Ég er andvígur (Forseti hringir.) hvalveiðum við Ísland og frá mínum bæjardyrum séð hefði (Forseti hringir.) það aldrei verið gert að neinu úrslitaatriði.