143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er svolítið sérstakt að það voru ansi margir þingmenn, eða 32, sem báðu um kvöldfund en ég sé ekki marga þeirra í þinghúsinu núna. Kannski hafa þeir nú þegar ákveðið að þessi skýrsla skipti ekki svo miklu máli af því búið er að taka ákvörðun um að slíta aðildarviðræðunum. Í skýrslunni er farið yfir öll þau atriði sem skipta meginmáli ef maður þarf að taka ákvörðun og ef maður er ekki búinn að gera upp við sig hvernig maður mundi að haga atkvæði sínu ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi um hvort við ættum að ganga í þetta bandalag.

Það er rétt sem hefur komið fram að þeir sem eru að fara að taka ákvörðun um það hvort þeir ætla að vera með eða á móti eru ekkert að gera það út frá einni línu. Alveg eins og mannfólkið er með mjög ólíkar áherslur í lífi sínu hlýtur það að vera þannig að hver og einn hefur ólíka sýn á það af hverju skiptir máli að vera innan eða utan sambandsins. Mér finnst svolítið mikilvægt að við höldum því til haga. Þetta snýst ekki bara um fisk og landbúnað. Þetta snýst ekki bara um nýja mynt. Þetta snýst ekki bara um að fá lagaramma utan um til dæmis umhverfismál, eða hvort við séum í viðskiptabandalagi eða hvort við ætlum að vera hluti af Evrópufjölskyldu. Það eru svo mýmargar leiðir til þess að gera upp við sig hvort við eigum erindi innan eða utan Evrópusambandsins. Auðvitað er það þannig, og mér finnst mjög mikilvægt að við horfumst í augu við það, að við erum nánast innan Evrópusambandsins. Meginundirstaða laga okkar, lögin sem við notum á hverjum degi í lífi okkar koma þaðan, 70–80% laga okkar eru Evrópulög. Mér finnst því skringilegt, bæði þegar einhver upplifir Evrópusambandið sem ógn og þegar einhver upplifir það sem allsherjarbjargvætt, það er auðvitað hvorugt.

Ég hlakka mjög mikið til. Ég er með áheyrn í utanríkismálanefnd og ég hlakka mikið til að fara ítarlega í þessa skýrslu, af því mig vantar meiri upplýsingar. Ég er ekki búin að gera upp hug minn og mig vantar meiri upplýsingar til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. Það að slíta aðildarviðræðunum gerir það að verkum að ég sem þingmaður sem er inni á þingi til þess að geta aflað upplýsinga fyrir kjósendur mína, til að geta tekið upplýstar ákvarðanir fyrir kjósendur mína, get það ekki. Mér finnst það ömurlegt.

Ég hef aðeins gluggað í skýrsluna og mér finnst hún að mörgu leyti draga ágætlega fram ýmsa kosti og ýmsa galla. Síðan þarf maður að vega og meta hvort er mikilvægara. Ég hef enn þá ekki forsendur til þess. Það er ekki búið að klára samning og þótt ég geri mér nokkurn veginn grein fyrir því hvernig samningurinn mun líta út er ekki búið að klára hann þannig að ég get ekki tekið upplýsta ákvörðun enn sem komið er.

Það kemur líka mjög skýrt fram að þessi skýrsla hér átti að vera grundvöllurinn að stefnumótun, grunnurinn, en í staðinn fyrir að leyfa þinginu að ræða þann grundvöll saman — það er einmitt styrkurinn við að fá að vera þingmaður þar sem eru 63 þingmenn, að við getum lært hvert af öðru. Það hefur mjög oft verið þannig þegar ég hef setið í nefndum eða þegar ég hef verið hér í þingsal og verið er að fjalla um mál að ég hef skipt um skoðun. En það er ekki fyrr en ég hef upplýsingarnar til þess að geta skipt um skoðun. Núna er verið að taka það frá okkur. Það er verið að taka það frá okkur og mér finnst það óendanlega ömurlegt.

Ég átti sæti í utanríkismálanefnd á síðasta þingi. Mér fannst þáverandi formaður utanríkismálanefndar ákaflega faglegur. Ég vil að því sé haldið til haga. Hann var faglegur (Forseti hringir.) og verkferlin sem farið var eftir voru mjög góð. Ég vil þakka fyrir það starf og ég vona að (Forseti hringir.) núverandi formaður nefndarinnar muni sýna sambærileg vinnubrögð.