143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún rakti ágætlega viðhorfin, ég ber mikla virðingu fyrir viðhorfum þeirra sem vilja kynna sér málið betur, hafa ekki endanlega gert upp hug sinn um afstöðu til Evrópusambandsins og telja þess vegna mikilvægt að skýrsla sú sem við erum að ræða núna komi fram og verði rædd í þaula. Þess gætir oft í umræðunni að menn tala eins og allir séu búnir að ákveða hver niðurstaðan eigi að vera. Meira að segja verð ég að játa það, þó að ég sé nú nokkuð ákveðinn Evrópusinni, að oft læðist að mér efi, það hefur oft gerst. Ég hef nært þann efa með mér í hvert skipti sem hann vaknar til að sannfæra mig um hvort þetta sé raunverulega besti kosturinn.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann þegar hún horfir á þessa skýrslu — af því að mér finnst margt gott í skýrslunni en ég tek líka eftir því að í hana vantar þætti. Ég tók ekki eftir þeim fyrr en nokkrum dögum eftir að hún kom fram, ég hélt ræðu um hana daginn eftir að hún var kynnt en það var ekki fyrr en við frekari grandskoðun sem ég fann ýmsa skalla í henni, eyður sem þyrfti að fylla í. Ég hef nefnt í umræðunni sérstaklega þá staðreynd að hvergi er í skýrslunni fjallað einu einasta orði um ávinning sjávarútvegsins af því að tollar á uppsjávarafurðir muni falla niður, núna eru þeir 15–20%. Við vitum hvað bolfisksvinnsla á Íslandi græddi á að tollar voru afnumdir, en það vantar algjörlega að fjalla um þetta. Ég bara nefni þetta sem dæmi.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Sér hún í skýrslunni slíkan stóradóm að hægt sé á einum degi að ráða af niðurstöðum hennar framtíðarákvörðun (Forseti hringir.) um að girða fyrir það að nokkurn tímann verði sótt um aðild að Evrópusambandinu eins og mér sýnist stjórnarflokkarnir hafa komist að niðurstöðu um?