143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka spurninguna. Ég er einmitt ekki fær um að sjá nákvæmlega hvað það er sem vantar enn þá, þess vegna finnst mér nauðsynlegt að fara í ítarlegt nefndarstarf þar sem við getum fengið til okkar eins og vera ber sérfræðinga sem geta farið yfir ákveðin vafaatriði. Það verður að viðurkennast að ég var mjög veik alla síðustu viku þannig að ég gat ekki einbeitt mér að því að lesa skýrsluna í þaula og píndi mig hingað í þingsal til að halda ræðuna mína sem ég hefði viljað vera miklu betur undirbúin fyrir. Fyrir vikið finnst mér svo skringilegt, út af því að ég veit að það er nú yfirleitt þannig, eins og hefur komið fram í tengslum við tillöguna sem kom frá stjórnarflokkunum um að slíta viðræðunum, að enginn hefur lesið greinargerðina.

Fólk ætlar sem sagt að fjalla hér um þessa ítarlegu skýrslu og öll fylgiskjölin á mettíma og leggja fram tillögu um að slíta viðræðunum. Það er mjög einkennilegt og alls ekki í anda slíkra stjórnmálahefða sem ég mundi vilja sjá hér því að ég hef alla tíð barist fyrir því að við þingmenn getum tekið upplýstar ákvarðanir. Ég var nú ekkert agalega vinsæl hjá síðustu ríkisstjórn stundum út af því. Mér finnst það ekki óeðlilegar kröfur, mér finnst ekkert skrýtið við það að þingmenn óski eftir því að fá að taka upplýstar ákvarðanir. Það erum við ekki að fá. Það er okkar hlutverk að vera millistykki á milli framkvæmdarvaldsins og þjóðarinnar, en við fáum ekki að rækta hlutverk okkar til að vera sá aðili sem getur veitt aðhaldið og upplýsinguna. Mér finnst það mjög óþægilegt. Ég er alveg viss um að það er fullt af skallablettum í skýrslunni því að betur sjá augu en auga.