143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[18:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég var einmitt með, þetta var aðalnefndin mín fyrst og síðan flutti ég mig yfir í áheyrn þegar vinnuálagið í nefndinni minnkaði. Langmesti þunginn í vinnunni var náttúrlega fyrsta árið sem ég sat á þingi, fyrstu tvö kannski, og þar af leiðandi fékk ég ágætisinnsýn í gott skipulag. Það er mjög misjafnt og fer eftir því hver formaðurinn er hversu gott skipulag er í nefndunum. Það er alltaf þannig, alveg sama hvar það er. Ég verð að segja hv. þingmanni, þáverandi formanni nefndarinnar, Árna Þór Sigurðssyni það til hróss að hann gerði þetta mjög vel. Mér finnst tillögurnar sem hafa komið frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að verklagi verið mjög fínar. Það væri mjög gagnlegt að heyra hvað núverandi formanni utanríkismálanefndar fyndist um það, en ekki er neinn ráðherra hér í salnum eða formaður utanríkismálanefndar.

Ég held líka að mikilvægt sé einmitt, eins og hv. þingmaður benti á, að skoða samhliða þessar tvær skýrslur. Ef það er ekki hægt, ef ekki verður hægt að bíða fram í apríl, þá verðum við að fá þessa aðila að borðinu til að fá upplýsingar frá þeim um hvaða lærdóm við getum dregið og hvaða stefnumótun eigi að koma út úr þessu.

Mér finnst mjög skringilegt að stefnumótunin sé unnin samhliða skýrslunni og það sé hreinlega búið að taka ákvörðun fyrir fram. Mér finnst þetta vera eiginlega móðgun við þingmenn og þingheim og kjósendur okkar allra, ekki bara einhverra þingmanna heldur allra, því að þeir eiga rétt á að fá upplýsingarnar til að geta tekið upplýsta ákvörðun þegar við förum með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) því að það er eina rétta leiðin.