143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þegar ég var á síðasta kjörtímabili formaður í allsherjarnefnd var það alvanalegt þegar mál voru til umfjöllunar að allir nefndarmenn, bæði í stjórn og minni hluta, sátu og voru viðstaddir umræðuna þegar verið var að fjalla um mál sem áttu að koma til nefndarinnar. Þess vegna fagna ég því að hv. þm. Birgir Ármannsson formaður utanríkismálanefndar sé kominn hingað í salinn og fylgist með.

Það er óneitanlega dálítið undarlegt að verða vitni að því að sá meiri hluti sem greiddi atkvæði með því að halda kvöldfund skuli vera jafn áberandi fjarverandi frá umræðunni sem fer fram hér, að menn séu tilbúnir til að taka ákvörðun um að þetta mál eigi að ræða fram eftir kvöldi en bara einhverjir aðrir en þeir og eru sjálfir víðs fjarri. Það er ekki umræðuhefðinni hér til framdráttar.