143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er ánægjulegt að sjá að formaður utanríkismálanefndar er kominn inn í salinn. Því miður gafst mér ekki kostur á að eiga í neinni orðræðu við hv. þingmann því að hann var ekki í salnum þegar ég hélt ræðu mína. Ég var að fjalla sérstaklega um verkferlið í nefndinni og því hefði verið mjög gagnlegt ef hv. þm. Birgir Ármannsson hefði komið í andsvör við mig. Mér finnst mjög leiðinlegt að þeir 32 þingmenn sem sögðust vilja vera hér að vinna í kvöld séu ekki þátttakendur í þeirri vinnu. Við erum að fjalla um skýrsluna, ég er að fjalla efnislega um skýrsluna og verkferlið og það sýnir enginn mér einu sinni þá virðingu að hlusta á það.

Þeir þingmenn sem láta sér annt um svokallaða virðingu, (Gripið fram í.)meinta virðingu Alþingis, ættu kannski — jú, það er einn þingmaður hér inni og hæstv. forseti neyðist (Forseti hringir.) til að vera hér (Gripið fram í.) og væri það örugglega ekkert endilega ef hann þyrfti ekki að vera á vakt, alveg sama hvaða forseti það væri. En ég er búin með tímann minn þannig að það er best að koma sér úr ræðustól.