143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:08]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það með félögum mínum hérna að það er ekki að ósekju sem gott væri að hafa fleiri stjórnarþingmenn sem tóku þá ákvörðun fyrir þingið að hafa kvöldfund. Ég velti fyrir mér hvort það sé komin almenn þreyta í stjórnarþingmenn en það er þá að minnsta kosti ekki vegna mikillar setu hér í þingsal, þó að þeir hafi ákveðið að taka þessa ákvörðun fyrir okkur.

Hér hefur verið nefnt orðið málþóf. Mig langar að vekja athygli á því að það eru 12 á mælendaskrá enn sem komið er og þar af eru alla vega fimm sem eru að fara að flytja sína fyrstu ræðu. Ég sagði það í gær og ég segi það enn: Er það tilraun til þöggunar þegar stjórnarmeirihlutinn er farinn að tala um að það sé málþóf ef tveir eða þrír eða fleiri í hverjum flokki kjósa að tjá sig og eiga eftir að fara í fyrstu ræðu? Það væri áhugavert að heyra viðhorf stjórnarþingmanna til þess.