143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér gerast þá þau heppilegu undur að ég er að taka til máls um fundarstjórn forseta og hv. formaður utanríkismálanefndar er á staðnum. Hann getur þá bara hlustað á hvað ég hef fram að færa. Það er einmitt erindi sem ég hef haft uppi allnokkrum sinnum án þess að fá svar við og það er svona:

Hvað á að gera við skýrsluna? Hvað finnst hv. þingmanni og formanni utanríkismálanefndar að eigi að gera við skýrsluna? Á bara að taka hana inn til nefndarinnar og gera lítið við hana eða sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt sé að nýta hana með einhverju móti við umfjöllun um þingsályktunartillögu hæstv. ráðherra? Hver sér hann fyrir sér að verði hin þinglega meðferð skýrslunnar?

Þessi spurning hefur ærið oft verið borin fram hér (BÁ: Og svarað nokkrum sinnum.) — og ég fagna því bara að hv. þingmaður er hér og búinn að biðja um orðið aukinheldur, og mér sýnist hann vera svo vel stemmdur að hann ætli jafnvel að reyna að svara þessu.