143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Ég svaraði því, hæstv. forseti, við fyrirspurn frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni hér á síðasta klukkutímanum að ég sæi fyrir mér að skýrslan kæmi til nefndar og fengi góða umfjöllun þar.

Varðandi það hvernig síðan yrði farið með það, hvaða gestir yrðu kallaðir til og annað þess háttar, held ég að það sé alveg ástæðulaust að fara út í einhverjar spekúlasjónir um það. Ég hins vegar lít svo á, eins og ég sagði í svari við fyrirspurn hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að skýrslan hljóti að vera mjög mikilvægt gagn í frekari umfjöllun utanríkismálanefndar um þær tillögur sem hér eru á dagskrá og munu vonandi komast að sem fyrst.

Ég átta mig ekki á, og segi þetta við hv. þingmenn með þeim fyrirvara að ég hef ekki rætt þetta við utanríkismálanefnd, sem auðvitað tekur sameiginlega ákvörðun um hvernig staðið er að málsmeðferð, hvaða tilgangi það mundi þjóna að nefndarálitum yrði skilað um þetta þegar fyrir liggja þingmál sem augljóslega munu fá venjulega þinglega meðferð. Eins og hv. þingmenn vita þá er misjafnlega farið með skýrslur. Þessi skýrsla er upplýsingaskýrsla. Önnur þingmál sem hingað koma, eða þingmál í formi (Forseti hringir.) þingsályktunartillagna, hafa þann tilgang að kalla fram afstöðu. En ritdómur utanríkismálanefndar um skýrslu sem lögð er fram til upplýsingar, ég sé ekki tilganginn með því.