143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[19:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta var eitt það skýrasta svar sem ég hef heyrt frá hv. þm. Birgi Ármannssyni um meðferð skýrslunnar fyrir hv. utanríkismálanefnd. Það stendur sem sagt ekki til, ef ég hef skilið rétt, að gera neitt annað en að senda skýrsluna til nefndarinnar og ef síðan væri tekið saman eitthvert álit um það sem þar kemur fram líti hv. þingmaður svo á að um einhvers konar ritdóm væri að ræða.

Ég minnist þess ekki — ég er auðvitað ekki jafn hokinn af þingreynslu og hv. þm. Birgir Ármannsson — að það hafi verið kallað því nafni áður þegar menn senda skýrslu til umfjöllunar í nefndum að nefndir gefi einhvers konar ritdóm um það sem þar kemur fram. Ég hélt að niðurstaðan væri að menn legðu eitthvað til í framhaldinu. Ástæðan fyrir því að menn hefðu eytt 25 milljónum í að skrifa þessa skýrslu væri að (Forseti hringir.) komast að einhverjum sannleika. Síðan væri tekin ákvörðun í framhaldinu af því, eitthvað lagt til. Þannig færi rökræðan fram og þannig tækjum við ákvarðanir í þessu landi.