143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

orðbragð og framkoma í þingsal.

[19:51]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill segja að gefnu tilefni á þessum þingfundi að mikið hefur skort á að fundurinn hafi farið fram í samræmi við góðar þingvenjur. Þetta ber mjög að harma. Atvik í þingsalnum og orðfæri sem ekki á að heyrast hér hafa sett slæman svip á þingstarfið.

Forseti vill biðja hv. þingmenn að sýna háttvísi i hvívetna og gæta þess að trufla ekki aðra þingmenn með óviðurkvæmilegum hætti, hvorki í orðum né athöfnum.

Hv. 9. þm. Norðaust., Bjarkey Gunnarsdóttir, beindi því til forseta að tjá sig um hvernig fara skuli með skýrslur sem vísað er til nefndar og spurði hvort skylt væri að gefa út nefndarálit. Svo er ekki. Það er hins vegar á valdi nefndarinnar að ákveða það og þegar nefnd hefur hafið störf metur hún með hvaða hætti afgreiðsla mála fer fram.