143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

umræða um skýrslu utanríkisráðherra.

[19:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég get fullvissað hæstv. forseta um að ég mun í hvívetna reyna að gæta hæversku eins og auðvitað allir aðrir þingmenn eiga að gera.

Menn hafa velt því fyrir sér hér hvað veldur þeim asa af hálfu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í því að hæstv. utanríkisráðherra gerir allt hvað sem hann getur til þess að þrýsta fram tillögu sinni sem hann segist bíða eftir að geta mælt fyrir.

Mig rak í rogastans þegar ég hlustaði á hæstv. utanríkisráðherra í beinni útsendingu í ríkissjónvarpinu áðan þar sem ég gat ekki betur skilið en að hæstv. ráðherra væri að segja að það væri meðal annars vegna þrýstings af hálfu Evrópusambandsins að honum liggur svona á. Hæstv. ráðherra sagði að það hafi komið fram af hálfu Evrópusambandsins að þessi bið gæti ekki verið utan endis, það verði að gefa einhver merki. Þetta hefur hann ekki sagt utanríkismálanefnd og ég fer fram á að hæstv. utanríkisráðherra skýri hvaða samtöl hann hefur átt við (Forseti hringir.) framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem hann hefur ekki sagt okkur frá. Hvar er grundvöllurinn fyrir ummælum hæstv. utanríkisráðherra?