143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því að hæstv. utanríkisráðherra mundi skýra orð sem féllu af vörum hans í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins. Þau mátti skilja með þeim hætti að það væri Evrópusambandið sem væri m.a. að ýta á að niðurstaða kæmi fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, hugsanlega á þá lund sem hér liggur fyrir í tillöguformi.

Hæstv. ráðherra vísaði þá til tveggja viðtala, við stækkunarstjórann 15. júní og í EU Observer. Hins síðara þekki ég ekki til en hið fyrra nauðaþekki ég og er alveg ljóst af samhengi máls í því viðtali að þar er stækkunarstjórinn að vísa til hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan yrði haldin. En vera kann að þetta hafi verið misskilningur af hálfu hæstv. utanríkisráðherra og þá læt ég það gott heita. Ella hefði ég talið, ef hæstv. ráðherra byggi yfir einhverjum upplýsingum sem ekki hafa komið fram gagnvart utanríkismálanefnd, að bráðnauðsynlegt væri að halda þegar í stað fund í þeirri góðu nefnd um málið. En málið tel ég upplýst.