143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið hugsi yfir svari hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Eru samskipti okkar í jafn stóru máli við Evrópusambandið ekki formlegri en svo að hæstv. ráðherra tekur skyndiákvörðun? Ég hef sagt að það sé eins og verið sé að rífa í neyðarhemil til að koma á dagskrá tillögu um að slíta viðræðum við Evrópusambandið um aðild. Byggir hann það á einhverjum blaðagreinum og fréttaskrifum sem hann var að vitna í hér áðan? Er það ástæðan fyrir flýtinum? Er það ástæðan fyrir því að við þurfum ekki að ræða þessa skýrslu? Eru samskipti hæstv. ráðherra við kollega sína í Evrópu og ákvarðanir sem hann tekur þannig að hann byggir það á fréttaviðtölum við einstaklinga úti í heimi? Ég er dálítið undrandi og hugsi yfir því ef hæstv. ríkisstjórn er að taka svona stórar ákvarðanir byggðar á fréttaviðtölum en ekki samtölum við kollega sína.