143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[20:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti upplýsti fyrr í kvöld að sú skýrsla sem hér hefur verið til umræðu eigi að fara til utanríkismálanefndar en ekki liggi ljóst fyrir hvort það eigi að gefa nefndarálit, það sé í höndum nefndarinnar.

Nú hefur verið kallað eftir því að utanríkismálanefnd hittist til þess að fara yfir hvort einhverjar upplýsingar hafi komið fram um að það sé pressa frá ESB um að taka af skarið og ljúka þessum viðræðum. Ef svo er held ég að það væri eðlilegt að menn reyndu að fá svar við því líka hvort ekki sé samstaða í nefndinni um að skila nefndaráliti.

Ef ég skil þetta rétt er það þannig að skýrsla sem fer til nefndar kemur aftur til umræðu, óháð því hvort nefndaráliti fylgi, nema hæstv. forseti slíti umræðunni við lok hennar. Og það er örugglega í valdi hæstv. forseta að svara því hvort hann hyggist slíta umræðunni þegar henni lýkur í kvöld eða á morgun eða hvort hann reikni með því að (Forseti hringir.) hún haldi áfram þegar búið er að fjalla um skýrsluna í utanríkismálanefnd.