143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Hann leiðréttir mig ef það er ekki rétt en mér finnst eins og það skipti hv. þingmann meira máli, í umræðunni um það sem við erum að fjalla um, sem er skýrslan sem liggur fyrir en af henni leiðir síðan hin gerræðislega tillaga hæstv. utanríkisráðherra, að ekki eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og spyrja fólkið, heldur en í rauninni athöfnin sjálf að ganga hugsanlega einhvern tíma í Evrópusambandið eða að gera það ekki, hvort heldur er.

Það segir í stjórnarsáttmálanum, ég held að það sé örugglega í stjórnarsáttmálanum sem hefur verið vitnað í nokkrum sinnum í þessari umræðu, eða einhvers staðar er það sagt að gera eigi skýrslu sem eigi að kynna fyrir þjóðinni. Síðan verði tekin afstaða um næstu skref í þessu mikla máli sem ég tel mikið hagsmunamál fyrir okkur en aðrir telja kannski ekki mikið hagsmunamál fyrir okkur.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Hvernig telur hann að eigi að stuðla að kynningu á skýrslunni meðal þjóðarinnar? Og er það ekki alveg út úr öllu korti að (Forseti hringir.) leggja fram tillögu um ákvörðunina áður en (Forseti hringir.) skýrslan er kynnt?