143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Eitt sem ég hef alltaf rekist á í gegnum tíðina þegar ég ræði stjórnmál við vini og vandamenn er að fólk treystir ekki stjórnmálamönnum, það nennir ekki að pæla í pólitík. Það er vegna þess að það upplifir málið þannig, með réttu, að það hafi svo gott sem engin áhrif. Fólki finnst það vegna þess að það er satt.

Ég held að besta leiðin til að kynna þessa skýrslu og málefnið í heild sinni sé að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það eitt og sér mundi leiða af sér gríðarlega aukningu í umræðu um málið. Þegar fólk upplifir það að ákvörðunin skipti máli, þá fyrst fer það að hafa fyrir því að kynna sér málið nógu vel til þess að taka rétta ákvörðun.

Í alvöru talað, til hvers ætti fólk að vera að kynna sér þessa skýrslu — hún er samt ekki það löng, 100 og eitthvað blaðsíður, minna en 200 blaðsíður, maður er ekki svo lengi að lesa hana — hvers vegna ætti það að lesa skýrsluna ef það veit fyrir fram að það hafi engin áhrif, skipti engu máli hvað standi í henni? Þá les hana náttúrlega enginn og þá eru fréttamenn ekki ólmir í að komast að því hvað hverjum og einum finnst. Þá er umræðan svo miklu, miklu takmarkaðri.

Þetta segi ég af reynslu. Ég man mjög vel þegar forseti lýðveldisins neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin svokölluðu. Ég hef alltaf verið svona pínulítil stjórnmálarotta og kaffihúsarotta og oft verið að rífast við menn um allan fjandann á kaffihúsum, það eru yfirleitt rifrildi. En þá urðu skyndilega til rökræður og mönnum hætti að vera sama. Þeir voru ekkert endilega að reyna að sigra í einhverju rifrildi eða rökræðum, þeir voru að reyna að komast að réttri niðurstöðu, reyna að skilja málið. Þetta gerðist eingöngu við það að þessi staða kom upp, þegar það leit þannig út að fólk fengi að ráða þessu sjálft.

Ég fullyrði: Besta kynningin á þessari skýrslu og málefninu í heild sinni er einfaldlega sú að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu.