143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki betur en að það sé rétt, það er auðvitað aðlögun. Ég tel viðskipti almennt eða hreinlega alltaf vera eitthvert form aðlögunar. Ég er ekkert viss um að það sé eitthvað slæmt, ég veit ekki hvers vegna aðlögun varð eitthvað slæmt. Ég aðlaga mig samfélaginu, ég ætlast til þess að samfélagið aðlagist breyttum tímum. Aðlögun er bara hluti af því að breytast. Ég sé það ekki sem einfaldlega vondan hlut.

Það er verra þegar maður hefur enga stjórn yfir aðlöguninni, það er valdbeiting. Það er mun verra. Og jú, ég tek undir það að EES sé vissulega aðlögunarferli, ég lít reyndar á það sem staðreynd. Ég hef líka áhyggjur af því hvað sé næsta skrefið í þeim málum ef við slítum viðræðum við Evrópusambandið. Þá veit enginn hvað gerist vegna þess að fyrr eða síðar þurfum við að breyta stjórnarskrá. Síðar þurfum við að breyta henni meira. Það þarf alltaf að ganga lengra og lengra og einhvern tíma þurfum við að taka upp nákvæmlega þessa umræðu um það hvernig við ætlum að haga okkar málum sjálf. Það verður sama umræðan, væntanlega á sömu forsendum, og ég veit ekki hvernig það að slíta viðræðum við (Forseti hringir.) Evrópusambandið á að gera EES-samninginn að minna aðlögunarferli.