143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[20:59]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þegar skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um Evrópusambandið var sett á dagskrá í síðustu viku sá ég fyrir mér að ég mundi ekki hafa tök á því að lesa hana fyrr en um helgina og fagnaði því þess vegna þegar það leit út fyrir að umræðan um hana mundi dragast fram yfir helgi. Ég hefði þá tóm til þess að fara vandlega yfir skýrsluna og taka þátt í þeim umræðum sem ég hef verið þátttakandi í, ásamt öðrum sem hafa lagt stund á stjórnmál, í næstum því 20 ár eða um það bil frá árinu 1995 þegar ég fór fyrst að eiga í rökræðum um kosti og galla Evrópusambandsaðildar.

Málið var nefnilega statt þannig fyrir viku að við vorum að fara að ræða um kosti og galla og hvort við ættum að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Skýrslan átti að vera greining á því og dýpka þá umræðu, og það gerir hún að mörgu leyti. Það gerðist svo á föstudaginn þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í sjö að það bárust í símtæki alþingismanna skilaboð um að dreift hefði verið þingsályktunartillögu frá hæstv. utanríkisráðherra um að slíta viðræðunum við Evrópusambandið.

Ef maður greinir þá atburðarás hlýtur maður að átta sig á því að sá sem tekur slíka ákvörðun í miðri umræðu um skýrslu þar sem farið er yfir kosti og galla Evrópusambandsaðildar er að taka ákvörðun um að eðlisbreyta umræðunni. Hann er í raun og veru að breyta stefnunni þannig að umræðan um það hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu breytist í að verða um hvernig eigi að taka þá ákvörðun og hverjir eiga að taka þá ákvörðun. Og það er auðvitað það sem umræðan hefur snúist um síðustu daga og valdið því að hér hafa spunnist miklar umræður á þinginu, mjög harðar deilur, þung orð hafa fallið, þúsundir manna hafa mótmælt hér dag eftir dag, 33 þúsund Íslendingar hafa skorað á ríkisstjórnina að gera þetta ekki.

Ég held því fram að þau viðbrögð hafi verið fyrirsjáanleg. Kannski hefur hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. ríkisstjórn ekki áttað sig á því að viðbrögðin yrðu jafn þung og raun ber vitni en ég held að mönnum hafi mátt vera ljóst að þetta mundi eðlisbreyta umræðunni, og þá velti ég fyrir mér: Hvers vegna vildu menn það? Vildu menn ekki halda umræðunni á grunni skýrslunnar sem kostað hefur verið til miklum fjármunum til að vinna, vildu menn eðlisbreyta umræðunni þannig að menn hættu að ræða skýrsluna og færu frekar að ræða ákvörðunartökuna? Það finnst mér blasa við og hvernig getur staðið á því?

Getur verið að það sé rétt sem fram kom í svari hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur við andsvari, að hugsanlega hafi skýrslan ekki staðist væntingar þeirra sem pöntuðu hana vegna þess að í henni er ekki að finna neitt endanlegt svar um það sem réttlætir þá niðurstöðu sem nú blasir við, þ.e. þá niðurstöðu sem blasir við í þingsályktunartillögu hæstv. ráðherra? Hún er enginn endanlegur dómur um að menn skuli hætta samningaviðræðunum, hún er ágætisfóður í umræðuna en á báða vegu. Þeir sem eru fylgjandi Evrópusambandsaðild geta fundið þar sitthvað sem styrkir þá í trúnni, þeir sem eru andvígir geta jafnframt fundið þar rök. Þess vegna er það miður að þessi umræða skyldi ekki klárast áður en við vorum komin í þá stöðu að vera að ræða þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra.

Mig langar aðeins til þess að fara yfir, ekki bara þau viðbrögð sem verið hafa hér í þinginu og á Austurvelli, vegna þess að okkur þingmönnum eru þau fullkunnug, heldur viðbrögð í samfélaginu. Ákvörðunin sætir gagnrýni frá aðilum vinnumarkaðarins sem eru að láta vinna sína eigin skýrslu og ummæli hæstv. utanríkisráðherra um þá skýrslu, sem er væntanleg, voru mjög óheppileg og auðvitað ekki mikil virðing í þeim fólgin fyrir ólíkum skoðunum. Þá hafa Samtök iðnaðarins gagnrýnt þessa ákvörðun harðlega.

Mig langar að vitna, með leyfi forseta, í formann Samtaka iðnaðarins sem segir:

„Þetta er afdrifarík ákvörðun fyrir fólk og fyrirtæki. Með þessari ákvörðun þá fer ríkisstjórnin gegn mörgum fyrirtækjum innan Samtaka iðnaðarins sem vilja að kannað sé til hlítar hvort að samkeppnishæfni þeirra sé betur borgið innan eða utan ESB.“

Þetta eru ummæli úr atvinnulífinu um ríkisstjórn sem lítur á sig sem sérstakan vin atvinnulífsins og viðskiptalífsins.

Mig langar til þess að vitna enn frekar í talsmenn atvinnulífsins. Jón Sigurðsson, forstjóri hins alþjóðlega stoðtækjafyrirtækis Össurar, er afar ósáttur.

Með leyfi forseta:

„Ég held að langflestir séu mjög svekktir og ég er ákaflega sjokkeraður,“ segir Jón Sigurðsson. „Þetta er mjög slæmar fréttir fyrir okkur og reyndar alla þá sem eru í alþjóðaviðskiptum og reka fyrirtæki á Íslandi.“

Þetta eru stór orð. Þetta eru ekki orð sem nokkur stjórnmálamaður ætti að taka öðruvísi en sem mjög þungum og stórum og leggja vel við hlustir.

Mig langar líka til þess að vitna í landsliðsfyrirliðann okkar Ólaf Stefánsson sem mætti hér á Austurvöll, ræddi við fjölmiðla og sagði, með leyfi forseta:

„Ég er ekki að segja að ég sé fyrir ESB, ég hef ekkert ákveðið um það. Þetta snýst ekki um það,“ sagði Ólafur. „Þetta snýst bara um að standa við sín orð, vera ekki með svona svik í kosningaloforðum, „feika“ allt og halda að menn komist upp með það.“

Fjölmiðlar hafa jafnframt rætt við tvo talsmenn annarra stórfyrirtækja, hjá Marel og CCP. Talsmaður Marels segir evruna eina raunhæfa valkostinn, að eins og sakir standi sé enginn annar raunhæfur valkostur á borðinu en evran í stað krónunnar og það sé enginn að segja að það eigi að ganga þar inn skilyrðislaust en ekki sé rétt að loka á valkosti eins og staðan er í dag.

Talsmaður CCP segir, með leyfi forseta:

„Við erum kannski svo ágætlega í stakk búnir að við þurfum ekkert nauðsynlega að vera hér frekar en einhvers staðar annars staðar, þó að við náttúrulega viljum vera það og erum búnir að vera hér í fimm ár undir gjaldeyrishöftum, á allskonar undanþágum og bixi sem því fylgir, sem er náttúrulega ekki eðlilegt umhverfi.“

Þetta eru auðvitað mjög alvarlegar athugasemdir sem ríkisstjórnin fær frá þessum fyrirtækjum sem veita hundruðum manna atvinnu, skapa gríðarlegar tekjur og eru með margvíslegum tilfæringum þátttakendur í íslensku hagkerfi. Ég skora á ríkisstjórnina og þá sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum að leggja við hlustir þegar svo alvarlegar athugasemdir eru lagðar fram í umræðunni. Það er nefnilega þannig að sú ákvörðun að slíta viðræðunum áður en allir kostir eru fullkannaðir, áður en samningur liggur á borðinu, er einhver sú versta ákvörðun sem hægt er að taka í þessu máli og hún hefur á engan hátt verið rökstudd. Það er satt best að segja ótrúlega undarlegur og holur hljómur sem birtist í þeim ummælum hæstv. fjármálaráðherra um ómöguleikann við að framfylgja niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er honum þvert um geð.

Það hefur auðvitað verið farið yfir það margoft hér í þessum ræðustól, og nú síðast í fréttum í dag þar sem vitnað var í og sýnt úr viðtölum við fleiri forustumenn í Sjálfstæðisflokknum, að það er ekkert sem hefur breyst frá því að þeir lofuðu því að fara með málið fyrir þjóðina áður en haldið yrði áfram með aðildarviðræðurnar sem réttlætir þessi sinnaskipti. Það er nefnilega þannig að það stenst ekki sem hæstv. fjármálaráðherra segir þegar hann heldur því fram að hann geti ekki fyllilega efnt það loforð. Það er svo að kosningaloforð núverandi stjórnarflokka var að bera áframhald viðræðna undir þjóðina, kosningaloforðið snerist um að bera áframhald viðræðna undir þjóðina. Ákvörðun stjórnarinnar í þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra sker sig algjörlega frá því. Hún felst í því að slíta viðræðum án alls samráðs við þjóðina.

Þess vegna er það fullkomlega rangt hjá hæstv. fjármálaráðherra, það er 100% rangt hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, að honum takist ekki fyllilega að efna loforð sitt við kjósendur sína. Honum tekst það á engan hátt. Í fullyrðingunni felst að að hluta efni hann það, en hann efnir það á engan hátt. Þetta er slík gjaldfelling á allri stjórnmálastéttinni, þetta eru svo alvarleg tíðindi fyrir stjórnmálin á Íslandi, að menn skuli leyfa sér að tala á þennan hátt fyrir kosningar og bjóða fólki upp á rökstuðning sem stenst ekki, sem er fullkomlega rangur. Það eru engin rök í málinu. Það getur ekki staðist að menn hafi sagt fyrir kosningar að þeir ætluðu að bera áframhald viðræðna undir þjóðina en gera síðan allt annað og halda því fram að ómöguleiki sé til staðar.

Það var nefnilega enginn ómöguleiki til staðar þegar haldnar voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur á síðasta kjörtímabili, m.a. að kröfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þær voru framkvæmdar, bornar fram af stjórnarflokkum sem hefðu með nákvæmlega sama hætti getað borið fyrir sig ómöguleika vegna þess að þeir hefðu getað fengið niðurstöðu sem væri þeim þvert um geð, og fengu reyndar slíka niðurstöðu og fengu fólk til þess að vinna við þá niðurstöðu og fengu enn þá betri niðurstöðu. Þeir sem hafa þennan skilning á lýðræðinu og þeir sem hafa þennan skilning á því að vera í þjónustu almennings, að vera í opinberri þjónustu, þeir eiga ekki að bjóða sig fram til þess að vera í forustustörfum í lýðræðisríki. Það væri þá miklu frekar að bjóða sig fram til þess að gerast næsti prinsinn af Liechtenstein þar sem prinsinn hefur á móti þinginu, sem er nú örlítið smærra en þetta þing en samt ekki mikið, neitunarvald, algjört neitunarvald. Prinsinn getur það í Liechtenstein. En hér eru ákvarðanir teknar með meirihlutavægi. Ákvörðun er tekin með því að meiri hluti þjóðarinnar ákveður hver næstu skref eru.

Hér er á ferðinni ákvörðun sem hefur reynst gríðarlega erfið fyrir íslensk stjórnmál og besta mögulega leiðin til þess að leysa þetta álitamál er að vísa því í dóm þjóðarinnar með eins miklar upplýsingar á borðinu og mögulegt er. Og sá er munurinn á því ferli sem hófst með samningaviðræðum við Evrópusambandið og þeirri ákvörðun sem felst í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra að endanlegur dómur á fyrri leiðinni, endanleg niðurstaða, hefði ávallt verið borin undir þjóðina. Þannig er það.