143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór ákaflega vel yfir það hvernig og hversu stór hópur það er og hvernig hann er samsettur sem mótmælt hefur því að hæstv. ríkisstjórn dragi umsóknina til baka án þess að bera þá ákvörðun undir þjóðina. ASÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu og 60% fyrirtækja sem eru í Samtökum atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og fólkið sem hefur verið hér á Austurvelli svo þúsundum skiptir undanfarna daga hafa mótmælt þessari tillögu. Mér finnst því að draga megi þá ályktun að það sé ekki hagur almennings og fyrirtækja í landinu að draga umsóknina til baka.

Hvaða hagsmuni telur hv. þingmaður að hæstv. ríkisstjórn sé að verja með þessari ákvörðun sinni?

(Forseti (SJS): Forseta láðist að geta þess að að sjálfsögðu er ræðutími styttur í eina mínútu í hverri umferð af þeim sökum að fjórir hv. þingmenn hafa óskað eftir að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns.)