143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði frá því í ræðu minni fyrr í umræðunni að ég hlustaði á utanríkisráðherra Eistlands þegar hann kom hingað til lands og sagði frá því af hverju Eistar vildu fara í Evrópusambandið. Þar talaði hann sérstaklega um þá hagsmuni lítillar þjóðar að styrkja sjálfstæði sitt með því að gera bandalag við aðrar þjóðir og nefndi Evrópusambandið í efnahagslegu tilliti og NATO síðan af öryggisástæðum, en hann taldi mikilvægt að styrkja sjálfstæði þjóðarinnar með þessum hætti.

Umræðan hér á landi hefur hins vegar gengið út á það að ef við göngum í Evrópusambandið séu Íslendingar að tapa sjálfstæði sínu. Ég vil biðja hv. þingmann aðeins að fara yfir þann meiningarmun og segja hvað honum finnst um hann.