143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er nefnilega dálítið merkilegt þegar maður skoðar skýrsluna og hlustar líka á málflutning hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans í málinu að þeir hafa talið það sér sérstaklega til tekna og litið á það sem sérstakt fóður í rökstuðningi sínum og málflutningi að efnahagsástandið sé mismunandi innan Evrópusambandsins, að það sé ekki jafn gott alls staðar. Mér finnst það einmitt vera vísbending um það að þar er auðvitað um að ræða samstarf sjálfstæðra þjóða sem þurfa eftir sem áður að sýna aga í hagstjórn sinni og beita sjálfa sig sjálfsaga til að missa ekki fjármál sín úr böndunum. Þetta er eitthvað sem menn hafa túlkað á ólíkan hátt en ég dreg ekki í sjálfu sér þessa niðurstöðu neitt í efa. Ég held að vinnubrögðin á bak við skýrsluna hafi verið býsna góð.