143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það og er ekki að halda því fram að skýrslan sé ekki vel unnin. Hins vegar vekur það hjá manni spurningar að ekki sé vilji til þess að bíða eftir annarri skýrslu sem sýnir fleiri hliðar á málinu og búið er einhvern veginn að ákveða það að við þurfum ekki að ræða hana neitt nánar, því að ég hef velt því upp að kannski þyrftum við að ræða um það sem ekki var spurt í þessari skýrslu og ekki kom fram.

Ég velti líka fyrir mér hvað það er í rauninni sem veldur því að ríkisstjórnin þorir ekki að láta þessi mál í hendur þjóðarinnar, hvað er raunverulega þar á bak við ef hún telur sig vera svo sannfærða um að kjósendur sínir, þ.e. kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, séu svo sannfærðir um að ekki eigi að ganga í Evrópusambandið, að þeir þori þá ekki að takast á við það að bera það undir þjóðina. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi velt því eitthvað fyrir sér hver hin raunverulega ástæða er fyrir því (Forseti hringir.) að þeir þora ekki að láta lýðræðið ráða.