143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þyngstu ummælin sem ég hef látið falla í þessari umræðu og sé svolítið eftir, get upplýst það hér, er að kalla hv. þingmenn og hæstv. ráðherra pólitíska hryggleysingja. Það var kannski fullharkalega orðað af mér en mér var heitt í hamsi og það getur ýmislegt fokið þegar þannig er. Með því átti ég við að mér virtist sem það væri ekki hugrekki til þess að bera þetta mál undir þjóðina og að menn væru einfaldlega á hlaupum undan því að mögulega gæti niðurstaðan orðið þeim þvert um geð. Það finnst mér vera mikið áhyggjuefni, mér finnst það mjög miður. Ég held að eina ástæðan fyrir því að menn grípi til þessarar mjög svo afdrifaríku ákvörðunar sé sú að menn óttast að samningurinn verði samþykktur. Það blasi einhvern veginn við að niðurstaðan verði það góð að hann hljóti að verða samþykktur, þjóðin muni gera það.