143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég velti því sama fyrir mér, hvort það væri mögulega brunaútsala í gangi um helgina hjá Evrópusambandinu þar sem fram færi einhvers konar sjálfkrafa innlimun eyríkja og menn mundu skyndilega vera orðnir hluti af Evrópusambandinu, vegna þess að asinn er slíkur. Það hefur að vísu á engan hátt verið útskýrt í þessari umræðu hvað það er í sjálfu sér sem hastar, hvers vegna mönnum liggur svo á að koma þessari þingsályktunartillögu í gegn. Það væri fróðlegt að vita það.

Það sem manni dettur einna helst í hug er að menn mundu ekki vilja hafa langvarandi viðbrögð, langvarandi opinbera umræðu um þessa ákvörðun enda skortir átakanlega rök fyrir henni. Ég ímynda mér það án þess að ég geti beinlínis sett mig inn í hugarheim þeirra sem bera ábyrgð á þessum málatilbúnaði öllum.