143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Róberts Marshalls að hann hafði mikla ást á lýðræðinu og lýðræðið í þessu máli fælist í því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla sem skyldaði mig til að halda áfram viðræðum og aðlögun inn í samband sem ég vildi ekki fara í.

Út af þessari lýðræðisást vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé nýtilkomin hjá honum eða hvort hún hafi verið til staðar líka þegar ákveðið var að sækja um aðild í Evrópusambandið og þegar ákveðið var á síðasta kjörtímabili að ríkissjóður tæki skuldir annarra á sig upp á næstum því 1 þús. milljarða án þess að um það væri þjóðaratkvæðagreiðsla.