143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég er ekki nýbúinn að þróa með mér lýðræðisást. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þetta sé besta leiðin til þess að komast að niðurstöðu.

Sá er munurinn á tilurð þeirra samningaviðræðna sem ráðist var í og þeirri þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir og mér sýnist að hv. þingmaður ætli að styðja er að hún gerði alltaf ráð fyrir að endapunkturinn yrði hjá þjóðinni. Það gerir tillagan frá hæstv. ríkisstjórn ekki. Ég get virt það að hv. þm. Brynjar Níelsson sé búinn að komast að niðurstöðu fyrir sitt leyti og fyrir sinn hatt, en það að hann ætli að taka þann rétt af þjóðinni, punktur og basta, er ekkert annað en forræðishyggja. Ég hefði eiginlega síst af öllu trúað því upp á hv. þingmann að það yrði erindi hans hingað inn á Alþingi Íslendinga að vera talsmaður og boðberi slíkra vinnubragða.