143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við höfum hlustað hér á ágæta umræðu um þessa skýrslu. Í framhaldi af þeim andsvörum sem voru við ræðuna á undan vil ég segja að mér finnst viðbrögðin, þ.e. þegar skýrslan kom fram og menn tóku sig til og fluttu í skyndi tillögu um að slíta aðildarviðræðunum, vera eins og ótti væri við að hér hæfist málefnaleg umræða sem mundi kalla á það sem hefur raunar komið fram, að þjóðin fengi tækifæri til að segja álit sitt áður en menn slitu þessu ferli.

Það voru gefin fyrirheit, það voru gefin loforð, þau eru í stjórnarsáttmálanum, þau voru í kosningum og það er ótrúlegt í rauninni að stilla málinu þannig upp að nú stjórni ríkisstjórnarflokkar sem ekki eru hlynntir aðildarviðræðum og þá sé ekki hægt að spyrja þjóðina og vinna í samræmi við það sem þjóðin vill.

Ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. forseta fyrr í kvöld, að þessari umræðu muni ekki ljúka í kvöld, jafnvel þó að mælendaskráin tæmist og jafnvel þó að hún tæmist á morgun, vegna þess að málið fer í nefnd og þó að meiri hlutinn skili ekki nefndaráliti geti minni hlutinn gert það. Málið mun koma aftur til umræðu, því umræðunni mun verða frestað. Þetta finnst mér gríðarlega mikilvægt sem þýðir að sú góða umræða sem hefur verið í gangi hér í kvöld muni skila sér áfram í framhaldi málsins þegar búið er að kalla til gesti og fara ítarlega yfir það sem hefur komið fram, bæði í skýrslunni og í umræðunni.

Það sem mig langar að gera að umtalsefni, vegna þess að menn eru að tala um að ríkisstjórnin geti ekki haldið áfram með málið af því að hún sé á móti því, þá langar mig að vekja athygli á því hvernig þetta ferli hefur verið sett upp. Mér finnst alltaf gæta misskilnings í því að hér hafi verið einhverjir þingmenn, flokkspólitískir aðilar sem hafi borið fram kröfugerðir á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar. Þannig var ferlið aldrei sett upp. Þetta var vel skilgreint. Settir voru í gang sérstakir samningahópar þar sem sátu fulltrúar og ef ég vitna bara beint í skýrsluna, á bls. 4, með leyfi forseta:

„Í samningahópunum sátu fulltrúar ráðuneyta, stofnana, hagsmunaaðila og félagasamtaka, í samræmi við málefnasvið hvers hóps.“

Þetta snerist aðallega um að undirbúa viðræðurnar og síðan í framhaldinu, svo að ég færi mig yfir á bls. 5, með leyfi forseta:

„Þegar á leið tóku samningahóparnir einnig þátt í að móta og þróa samningsafstöðu Íslands og veita ráðgjöf til samninganefndarinnar.“

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessir hópar starfi áfram. Margir af þeim voru flokksbundnir og komu héðan og þaðan og enginn setti á það einhvern pólitískan stimpil þegar verið var að velja þá. Það var sem sagt lagt upp með það í upphafi að menn ættu að flagga sérstöðunni í hverjum málaflokki. Síðan átti að fara fram rýnivinna og stöðumat í hverjum málaflokki, sem endaði með rýnifundi. Því næst átti að vinna samningskröfur Íslands þar sem menn lögðu fram ýtrustu kröfur. Það er fróðlegt að skoða þessar kröfur, þ.e. þær liggja allar á netinu nema þær sem ekki var búið að ljúka og leggja fram, sem voru aðallega í landbúnaði og sjávarútvegi. Ef ekki þurfti að breyta neinu í tengslum við þetta var málinu lokað en þó með fyrirvara vegna þess að það var hægt að taka það upp aftur því að samningurinn yrði aldrei gerður nema allt væri frágengið.

Hver er hættan fyrir ríkisstjórn, sem fær það boðvald frá þjóðinni að halda áfram viðræðum, að halda þessu ferli áfram? Það er enginn að tala um að hæstv. ráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson eigi að vera þarna við borðið, þeir þurfa þess ekki. Það er hægt að vinna að hagsmunum þjóðarinnar eftir sem áður og taka þátt í því að leggja mat á stöðuna með viðbótarupplýsingum. Það er það sem verið er að biðja um, það er það sem við erum tala um.

Við ræddum líka um hvort þetta væru aðlögunarviðræður eða samningaviðræður. Ég hef spurt hér áður og það er búið að koma mjög skýrt fram í svari að það hefur ekki átt sér stað nein aðlögun á þessu tímabili, ekki ein einasta. Nefnið þið mér eina stofnun, eitt lagaákvæði eða annað sem hefur komið fram á þessu tímabili sem ekki hefði komið fram annars vegna EES og við hefðum samþykkt sjálfstætt. Það var nefnilega sett inn í skilmálana að aðlögunin mundi ekki hefjast fyrr en búið væri að ganga frá samningum og ganga til atkvæða. Það var sérákvæði Íslands í þessu ferli og það kemur fram í skýrslunni eða viðaukunum. (Forseti hringir.)

Því miður er tíminn ekki nema fimm mínútur í þessari seinni lotu en vonandi fáum við tækifæri síðar til að ræða betur þessa skýrslu.