143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvaða meiningar hæstv. ráðherrar voru með fyrir kosningar. Það var vitnað í það í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að fjórir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hefðu lýst því yfir að þjóðin ætti að hafa aðkomu að málinu og fá að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með leyfi forseta, ég vitna í Bjarna Benediktsson um Evrópusambandið:

„Við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og munum standa við það.“

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson:

„Ég er sammála því að það verði stöðvaðar þessar viðræður, að það verði ekki farið í það sem kallað er hægja á eða gera hlé, sem er auðvitað ekkert annað en að halda áfram en bara gera það hægar, og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla og þjóðin fái að segja sinn hug …“

Ég spyr hv. þingmann: Hvað telur hann að hafi breyst svona mikið (Forseti hringir.) og orðið þess valdandi að hæstv. ráðherrar hafi dregið allt (Forseti hringir.) í land varðandi þessar fullyrðingar sínar fyrir kosningar?