143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[21:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú væri eðlilegast að hér væru hæstv. ráðherrar í salnum og svöruðu þessu sjálfir. Einn af þeim, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson, svaraði þessu raunar þannig að hann hefði skipt um skoðun en svarið var þess eðlis, núna í kvöldfréttunum, að skilja mátti það sem svo að í og með vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn fór í samstarf við Framsóknarflokkinn hefði þetta verið hluti af kaupmálanum og þeir yrðu að gjöra svo vel að ganga að þessum breytingum.

Nú veit ég ekkert um það. Aftur á móti er þetta hluti af ástæðunni fyrir því að hér safnast fólk þúsundum saman dag eftir dag. Það eru vonbrigðin. Það hafa margir lýst því formlega yfir að þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn, en allir þessir ráðherrar eru úr honum, vegna þess að þeir gáfu skýr svör um að áður en viðræðunum yrði slitið yrði leitað til þjóðarinnar. Það loforð er verið að svíkja með þeirri þingsályktunartillögu sem hefur verið lögð fram í þinginu í svona mikum flýti. (Forseti hringir.) Þetta er hluti af því sem verður að koma fram í nefndinni og verður að fá skýr svör við. (Forseti hringir.) Hvað er það sem olli þessari hugarfarsbreytingu?