143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef margsvarað þessari spurningu vegna þess að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þegar maður leggur mál fyrir þjóðina eigi að liggja fyrir góðar upplýsingar, þeim mun betri þeim mun betra svar fær maður frá þjóðinni. Þannig var að þegar lagt var af stað voru engin fordæmi fyrir því að þing hafi lagt það fyrir þjóðina hvort fara ætti í viðræður, þar spurðum við þingið. Þetta var alltaf kýrskýrt að það væri þjóðin ein sem gæti leitt okkur inn í Evrópusambandið. Það gerði enginn þingmaður, það gerði enginn þingflokkur, það gerði enginn sérstakur þingvilji, það væri þjóðaratkvæðagreiðsla sem skæri úr um það.

Við töldum eðlilegt að það yrði gert við lok viðræðna þegar við værum í raun og veru búin að fá að sjá allt það sem væri í boði. Við sögðum meira að segja meira, við sögðum að það færi aldrei alla leið ef við teldum að samningarnir væru engan veginn ásættanlegir. Ef þeir hópar sem ég var að lýsa hér áðan, sem voru þverpólitískir, kæmust að þeirri niðurstöðu að ekkert væri í boði þá gæti umræðunni lokið á því stigi.

Nú hefur umræðan breyst og það voru aðrir sem lofuðu (Forseti hringir.) að þetta kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu og við erum að bjóða það núna sem sátt. Þá ætti hv. þingmaður að svara því af hverju hann þorir ekki núna, hvort afsökunin er ein að við hefðum ekki farið.