143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[21:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með því að vera þátttakandi í því að stinga upp á að málið fari til þjóðarinnar staðfesti ég að það er leið út úr stöðunni. En ég efast um það, miðað við það sem hefur gerst á þinginu og ýmsar ákvarðanir sem hafa verið teknar, m.a. varðandi ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar í sambandi við fjárlög og annað, að ég hefði treyst þessari ríkisstjórn til annars en að hunsa það, bara hunsa það. Hún segir: Það er komin ný ríkisstjórn, hér erum við komin, það var kosið, við höfum þessa skoðun og okkur kemur ekkert við hvað aðrir segja. Við erum komin hingað til þess að ráða.

Ég verð að segja hreinskilnislega að þetta er það sem mér finnst ég heyra frá þingmönnum stjórnarmeirihlutans, hverjum á fætur öðrum. Það finnst mér miður og sérstaklega með mál sem er svo stórt, eins og lýst var ágætlega með tilvitnunum í aðra hæstv. ráðherra, að það á að vera yfir það hafið að vera flokkspólitískt. Þess vegna voru búnar til já-hreyfingar og Heimssýn. Það voru settir peningar af fyrrverandi ríkisstjórn til beggja félaga til þess að reyna að skapa almenna lýðræðislega umræðu.

Nú kemur inn skýrsla (Forseti hringir.) sem átti að gera það sama en um leið fylgir: Nei, við ætlum ekkert að taka mark á skýrslunni, við ætlum að hætta.