143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög einföld spurning. Ég ítreka hana og vænti þess að þingmaðurinn, ef honum hefur ekki gefist tækifæri til að hugsa almennilegt svar, reyni að svara spurningunni, hvort þetta hafi ekki verið mistök á sínum tíma.

Það er önnur spurning sem mig langaði að spyrja. Fyrir kosningarnar 2009 lofaði annar af þeim tveimur flokkum sem þá gengu í ríkisstjórn að ekki yrði farið í aðildarviðræður við Evrópusambandið, Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Svo var gerður stjórnarsáttmáli og Vinstri hreyfingin – grænt framboð gekkst undir það að fara í þessar viðræður. Nú hafa mjög stór orð fallið í umræðunni í garð núverandi stjórnarflokka, en væri hægt að segja, ef menn teygðu sig langt, að það hafi verið svik við þáverandi kjósendur Vinstri grænna?