143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti Ég er kannski búinn að kynna mig þannig að hv. þingmaður gerir ráð fyrir að ég sé þingmaður VG. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega með það hvað stóð í kosningasamþykktum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð fyrir kosningarnar 2009.

Aftur á móti man ég, og það kom mjög fljótt fram og hefur nýlega komið fram í umræðunni, að þá opnuðu þeir strax á að þessi möguleiki yrði skoðaður þó að menn hefðu skýra afstöðu gegn aðild. Við skulum bara biðja þá þingmenn VG sem hér eru að svara fyrir það.

Aftur á móti hefði verið gaman, af því að ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður fari hér inn í umræðuna síðar, að heyra skoðun hans, fyrst hann hefur þessa ríku lýðræðiskennd að það eigi að fara (Gripið fram í.) — ég er að svara því hvort mistök hafi orðið. Hafi það verið mistök — ég tel það ekki vera, en hv. þingmaður telur svo vera — hefur hann tækifæri til að leiðrétta það núna. Ég er að bjóða upp á það að leiðrétta ef hægt er að nálgast þetta með nýjum hætti, og það er hv. þingmanns að svara því fyrir sig. Ég er búinn að svara fyrir mig, ég er tilbúinn að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki bara tilbúinn, ég tel það eðlilega leið (Forseti hringir.) til að komast út úr þeirri vandræðastöðu sem komin er upp.