143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér fyrr í dag var atkvæðagreiðsla um það hvort heimila ætti kvöldfund. Nú er töluvert liðið á kvöldið og ég var að velta fyrir mér hvort eitthvað væri að frétta af því hversu lengi við yrðum í kvöld vegna þess að við þurfum örugglega mörg að gera ráðstafanir.

Það fer að koma að því að ég fari á mælendaskrá og hér hafa menn varpað fram spurningum til ráðherra og formanns utanríkismálanefndar og fulltrúa meiri hlutans þar og ég tel afar mikilvægt að þeir komi hingað og taki þátt í umræðunum með okkur. Það er lágmark að þeir sitji í salnum og fylgist með því sem hér kemur fram og geri sér þó ekki væri nema eina og eina ferð upp í ræðustól til að svara þeim þingmönnum sem hér tala og spyrja mikilvægra spurninga. Einu fréttirnar sem við fáum af svörum við þeim spurningum sem hér koma fram eru úr fjölmiðlum. Mér finnst það ekki boðlegt fyrir okkur (Forseti hringir.) sem erum að vinna vinnuna okkar í þinginu.